Alzheimer; áhugaverð grein sem Ævar Jóhannesson tók saman.

Alzheimer-sjúkdómur Er til lækning á honum? eftir dr. James A. Howenstine Formáli þýðanda Í tímaritinu Townsend Letter í apríl 2010 er löng grein með nafninu How to Heal Alzheimer´s Disease. Ég las þessa grein með athygli, því að mér fannst nafnið bera í sér ákveðna fullyrðingu um að þetta sé hægt, annars væri setningin orðuð öðruvísi. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, því að þó að e.t.v. séu þar ekki fullar sannanir fyrir að hægt sé að lækna alla sem þjást af þessum hræðilega sjúkdómi, eru samt gefin traustvekjandi dæmi um að stundum sé það að minnsta kosti hægt. Í lok greinarinnar er kafli um efni sem sennilega verka aðeins tímabundið á heilastarfsemina en hafa ekki varanleg áhrif. Þó er þetta ekki ennþá fyllilega ljóst. Þessi efni eru nefnd ,,Smart drugs” og eru talin örva vitsmunalega hæfileika og bæta  samtímis skilning á viðfangsefnum sem unnið er að. Það er út af fyrir sig áhugavert og spennandi rannsóknarsvið.

Ég tel þó að ennþá sé of lítið vitað um langtímaverkanir þeirra til að rétt sé að ræða um þau hér og sleppi því þeim kafla úr greininni. Að öðru leyti er greinin að mestu  óstytt. Þýðandi.   Hvað er Alzheimer-sjúkdómur? Alzheimer-sjúkdómur (AS) er sennilega einn sá sjúkdómur sem fólk óttast einna mest af þeim sjúkdómum sem hrjá mannkynið og margir telja það að missa hæfileikann til að skynja umhverfið og persónulegt vitundarástand sem sorglegan endi tilveru þess einstaklings.   Hæfileikinn til að hreyfa sig er sá fyrsti sem börn í vöggu öðlast vald yfir og einnig sá síðasti sem glatast hjá sjúklingi með AS. Því næst öðlast barnið kunnáttu við að matast, tala, hegða sér og átta sig á umhverfinu. Allt þetta gerist í öfugri röð þegar fólk fær AS. Það síðasta sem glatast er hæfileikinn til að taka til sín fæðu af eigin rammleik. Hæfileikinn til að gera allt þetta tengist því, að myelin-slíðrin sem umlykja taugaþræðina, sem eiga upptök sín í heilanum á því svæði sem stjórnar hreyfingum (motor cortex) en færist síðan áfram inn á svæði sem nefnt er ,,Hippocampus” á stað þar sem athafnir breytast í minningar. Þetta getur skýrt hversvegna börn innan þriggja ára aldurs eignast sjaldan varanlegar minningar.

Fyrstu einkenni AS eru oftast glötun á samtímaminni. Sjúkdómurinn eyðileggur myelin varnarhimnuna umhverfis taugafrumur (neurons) sem eru síðasta svæðið í heilanum sem myndar um sig myelin slíður í bernsku. Það er hippocampus, sem einnig er það fyrsta til að missa það. Árið 2000 var talið að fjögur og hálf milljón manna í Bandaríkjunum þjáðust af AS. Nú er áætlað að árið 2030 verði 9 milljónir manna komnir með þennan sjúkdóm, en helmingur 85 ára fólks og eldra verði þá kominn með Alzheimer-sjúkdóm.   Orsakir Alzheimer-sjúkdóms Raflýsing Alzheimer-sjúkdómur sýnist vera menningarsjúkdómur, merki siðaðrar menningar. Í hluta strjálla byggða sumstaðar í Afríku, þar sem ekki er neitt rafmagn, þekkist Alzheimer sjúkdómur varla. Þá fara flestir að sofa þegar dimma tekur á kvöldin og melatonin losnar úr heilakönglinum (pineal gland). Vegna þess að engin rafljós eru, er líklegt að fólk fái á hverjum sólarhring meira melatonin, öflugt andoxunarefni, sem gerir óvirk eitruð efnasambönd og stakeindir. Þá minnka líkur á Alzheimer-sjúkdómi. Raflýsing veldur því að minna af melatonin verur til og líkaminn því næmari fyrir skaða vegna súrefnisstakeinda og illkynja sjúkdóma.

Ál í umhverfi Eins og aðrir hliðstæðir málmar eykur ál myndun stakeinda sem geta skaðað myelin varnarhlífina utan um taugaþræðina. AS virðist vera bólgusvörun við þessu áreiti eða skaða. Fólk sem tekur að staðaldri bólguhemjandi lyf, önnur en stera t.d. asperín eða íbúfen o.s.frv. í lengri tíma en tvö ár, eru í 40% minni hættu á að fá AS en aðrir, enda þótt það auki líkur á að fá blæðingu frá meltingarfærum sem dálítið draga úr notagildi þessara lyfja sem vörn gegn Alzheimer-sjúkdómi.   Aftur á móti eykur það líkur á að fá AS um 250% að nota drykkjarvatn með miklu magni af áli í tíu ár eða lengur. Í Norður Ameríku er neysluvatn oft meðhöndlað með áli til að gera það ,,hreinna”. Árið 1970 var það uppgötvað að þeir sem voru með AS höfðu 1,4 sinnum meira ál í blóði en annað fólk sem ekki var með AS. Við rannsókn fannst það að dæmigerðar útfellingar í heila AS sjúklinga innihéldu mjög mikið af áli og við mjaðmarbrot kom í ljós að í beinum AS sjúklinga var einnig töluvert meira magn af áli borið saman við annað fólk sem ekki var með AS en hafði einnig mjaðmarbrotnað.

Hópur 48 alzheimer-sjúklinga var meðhöndlaður með efninu desferrioxamin, gefnu í æð tvisvar á dag í 5 daga, vikulega í tvö ár. Þetta efni bindur ál (chelation) svo það fer úr líkamanum með þvaginu. Allir þessir sjúklingar hrörnuðu hægar en aðrir sambærilegir sjúklingar sem ekki fengu efnið. Í annarri könnun voru kanínum gefnar innspýtingar með áli beint inn í heilann til að vita hvort það ylli Alzheimer-líkum einkennum. Síðar meir var helmingi þessara kanína gefið desferrioxamín. Þau dýr sem ekki fengu efnið urðu miklu verr úti en þau dýr sem fengu desferrioxamín-innspýtingarnar.   Óheppilegar utanaðkomandi kringumstæður sem líklegt er að geti átt þátt í að valda Alzheimerssjúkdómi:

  • Langvarandi neysla á súru drykkjarvatni (10 ár eða lengur)
  • Mikið magn af auðmeltanlegu áli í drykkjarvatni
  • Flúoríð sem oft er í efnasambandinu aluminium fluoríð, sem auðveldlega kemst yfir blóð-heila þröskuldinn.
  • Drykkjarvatn, annaðhvort án kísilsýru og/eða er með litlu magni af magnesíum og kalki í drykkjarvatni, þessi þrjú efni binda ál í meltingarfærum. Kísilsýran (silica) og hin efnin hindra að ál nái að mynda útfellingar í heilanum.

Kvikasilfur Margt fólk sem hefur nána snertingu við ál frá súru vatni, eldunartækjum úr áli, niðursuðudósum, sýrubindandi magalyfjum, svitaeyði og bóluefni svo fátt eitt sé nefnt, þar sem við komumst í snertingu við ál. Bóluefni eru oft blönduð með kvikasilfurssambandi (thimerasol) til að auka geymsluþol (þó að nú eigi víst að hætta  því). Við fáum kvikasilfur frá silfur (amalgam) tannfyllingum (50% Hg) þegar við borðum sumar fisktegundir og höfum fengið úr fjöldamörgum bólusetningum alla okkar ævidaga. Við getum auðveldlega gert okkur ljóst að stöðug áhrif af bæði áli og kvikasilfri geta verið tvöfalt meiri og skaðlegri en af álinu einu. En áhættan er mörgum sinnum meiri.

Dýratilraunir hafa sýnt að áhrifin af báðum þessum afar eitruðu málmum valda margföldum eiturverkunum, miðað við að um sé að ræða áhrifin af öðrum hvorum málminum einum. Það merkir að dýr sem verða fyrir eiturverkunum bæði af áli og kvikasilfri leiðir til að 30%, 60% eða 90% fleiri þeirra deyja heldur en verða mundi ef eitrunin væri aðeins af öðru hvoru efninu. Þegar við hugum að því að flestir verða einnig fyrir eitrunum af mörgum fleiri eiturefnum, t.d. cadmium, arseniki, uranium og fleiri málmum í líkama okkar er heildarmyndin ekki björt.   En hver er þá heildarmyndin og lausnin á þessari margföldu fjölefna eitrun? Mín skoðun er sú að einfaldasta, ódýrasta og hagkvæmasta leiðin sé langtíma meðferð með því að nota efnameðferð, sem á ensku kallast ,,oral chelation”.

Þá er tekið inn efnasamband sem gengur í samband við eiturefnið og losar um það svo það fer út í blóðið og þaðan frá nýrunum út í þvagi. (Chelation er aðferð sem lengi hefur verið notuð við að ná eitruðum málmum út úr líkamanum, t.d. blýi. Mörg mismunandi efni eru notuð til að ná mismunandi eiturefnum, t.d. er oft notuð tilbúna amínósýran ethyl diamín tetraediksýra, EDTA. Einnig má oft nota ýmsar lífrænar sýrur, t.d. sítrónusýru. Sýran myndar þá, með eitraða málminum, flókin sölt sem nefnast ,, chelöt”. Chelat getur oft haldist í upplausn þar sem efnið eða sölt af því geta það ekki. Sé efnið komið í upplausn í chelatinu getur það komist í blóðrásina og þaðan gegnum nýrun út í þvagið og líkaminn þannig losað sig við eiturefni. Chelat heitir ,,krabbakló” á íslensku. Innskot þýðanda.)

Það tekur allt að 15 ár að ná út úr beinunum öllu því blýi sem í þeim er og getur orðið 400 sinnum meira en fólk hafði fyrir 400 árum. Máli skiptir að halda hormónajafnvæginu í lagi, því að það flýtir fyrir að beinin jafni sig og eðlileg efnaskipti komist á í beinunum. Aðeins þegar jafnvægi kemst á milli nýmyndunar beinvefs og beineyðingar beinvefs er í fullkomnu jafnvægi, er hægt að segja að beinin séu í algeru lagi. Flest nútímafólk er með óeðlilegt magn af kynhormónum, östrógen, prógesterón og testosteron og eiga því í erfiðleikum með að losna við þessa óheppilegu, eitruðu málma.

Rafsegulbylgjur Rannsóknarfólk við læknaháskóla Suður Kaliforníu staðfesti að það var beint samband á milli rafgeislunar og Alzheimer-sjúkdóms. Fólk sem mikið vann við rafmagn, t.d. rafvirkjar, rafeindavirkjar, tæknifræðingar, vélfræðingar, vélgæslumenn, fólk sem vann við saumaskap, plötusmiðir, setjarar, rafsuðumenn og fólk sem vann í vélsmiðum og vélaverslunum, var í fjórum sinnum meiri hættu en annað fólk að fá Alzheimer-sjúkdóm. Vissulega á sú gríðarlega aukning á að nota farsíma, heimilistölvur, rafmagnsábreiður, hárþurrkara og útvarpsklukkur rétt við höfðalagið, vafalaust þátt í að gera þessa hluti jafnvel ennþá skaðlegri en þeir voru fyrir 23 árum, þegar þessi könnun var gerð.   Erfðafræðileg atriði Erfðalykillinn að flestum alzheimers tilfellum var í upphafi aðallega bundinn við APOE4 erfðavísinn. Hið venjulega hlutverk APOE4 er flutningur kólesteróls gegnum líkamann. APOE4 er talinn finnast í um það bil 40% þeirra sem tilviljunarkennt greinast með AS meðal eldra fólks. Fólk með einn APOE4 erfðavísi fær yfirleitt AS yngra heldur en fólk með engan APOE4 erfðavísi. Það fólk fær sjaldan AS yngra en 85 ára. Fólk með APOE4 erfðavísi á í vissum erfiðleikum með að losna við hið límkennda beta-amyloid prótein. Þessir örðugleikar skapa raunar líkur á að fá AS, fram yfir þá sem ekki hafa APOE4 erfðavísinn, sem auðveldlega geta losað sig við beta-amyloid prótein útfellingar. Það að einstaklingur sé með APOE4 erfðavísi þýðir alls ekki að sá hinn sami fái Alzheimer-sjúkdóm. Það þýðir aðeins, að séu aðrar ytri aðstæður einnig til staðar er líklegt að sá einstaklingur fái Alzheimer-sjúkdóm.

Augljósasta merkið um AS eru kekkir úr próteini. Þessir kekkir geta verið bæði inni í heilafrumunum eða utan þeirra. Innan þeirra eru þeir kallaðir ,,neurofibrillary tangles”, þetta líkist uppvöfðum, gormlaga þráðum sem gerður er úr ,,tau”-próteini. Það gegnir mikilvægu hlutverki í frumum vegna þess að það er bundið við annað prótein sem kallað er ,,tabulin” til að mynda svokallaðar ,,örpípur” (microtubules). Þessar örpípur sem líkjast súlum, gefa frumunni form og útlit. Þar að auki mynda þær leið til að útvega frumunni næringu og leið sem frumuhlutar geta nýtt sér til þess að komast gegnum frumurnar. Í þessari óreiðu er m.a. oxað form af járni og einnig áli. Járnið stuðlar líklega að frumudauða. Mikil myndun fosfórefnasambanda (phosporylation) úr tau próteini leiðir til að það snýst upp á örpípurnar, frumuveggurinn fellur saman og fruman visnar og deyr.   Beta-amyloid útfellingar finnast á svæðinu milli frumanna. Peptíð með 42 amínósýrur myndast, en það er eitrað. Það myndar útfellingar utan um taugafrumurnar. Þetta sérstaka beta-amyloid veldur truflun á stjórnun á calcium (kalki) sem leiðir til skemmda vegna stakeinda og árása ónæmisfrumna.

Málmprótein sem innihalda kopar, zink og járn eru einnig í þessum útfellingum. Í litlu magni virðist zink hjálpa til við að verja frumurnar fyrir útfellingunum en í miklu magni snýst þetta við og eykur myndun á útfellingum.   Hómocystein, æðasjúkdómar o.fl. Það er 200% aukin hætta á Alzheimer-sjúkdómi hjá fólki með hækkað hómócystein í blóði. Blóð með of miklu homocysteini eykur einnig umtalsvert hættu á fjölda annarra sjúkdóma. Of hátt kólesteról er einnig algengt hjá sjúklingum með æðakölkun (hjartaáföll, heilaáföll, stíflaðar æðar). Blóðtappar í slagæðum, þykknun æðaveggja. Þannig æðabilun má oft laga með að nota reglulega B-complex vítamín (B3, B6, fólinsýru og B12) og auk þess C-vítamín og E-vítamín.   Beingisnun: Eldri karlmenn með mikið hómócystein í blóði eru í fjórum sinnum meiri hættu að fá mjaðmarbrot, heldur en þeir sem hafa lítið af því í blóði. Konur sem hafa mikið hómócystein í blóði eru aftur á móti 1,9 sinnum meiri hættu að mjaðmarbrotna en þær konur sem hafa lítið hómócystein í blóði.

Skortur á B12-vítamíni, sem skaðar taugar, eykur líkur á að detta með því að trufla jafnvægisskynið. Beingisnun getur hæglega verið afleiðing of mikils hómócysteins í blóði. Hún er því afleiðing af of miklu hómócysteini í blóði, sem þá leiðir af sér lélegt blóðflæði og ófullnægjandi oxun. Lyf eins og acetaminophen og nokkur sýklalyf (Tylenol, Septra og Bactrim) geta aukið hómocystein í blóði. Acetaminophen minnkar framleiðslu líkamans á því mikilvæga heila-andoxunarefni glútathion. Tveggja ára meðhöndlun með acetaminophen á öldruðu fólki jók hættuna á að fá alzheimer-sjúkdóm um 35%. Óeðlilega hröð öldrun sést á fólki sem notar acetaminophen. Það er notað í tilraunum á dýrum til að framkalla starblindu (cataract). Lífshættuleg lifrarbilun getur orðið við notkun á acetaminophen.   Tuttugu og fimm konur höfðu orðið þungaðar en misst fóstur frá 8.-16. viku meðgöngu.

Allar þessar konur reyndust vera með of mikið hómocystein í blóði og þegar þær fengu 15 mg af fólinsýru á dag ásamt 750 mg af B6-vítamíni varð árangurinn sá að tuttugu þeirra urðu þungaðar án  neinna vandræða á meðgöngu og áttu allar heilbrigð börn og án fæðingargalla. Þetta bendir til að allar konur sem endurtekið hafa misst fóstur, ættu að athuga hvort of miklu hómócysteini er ekki um að kenna, sem auðvelt er að lagfæra með því að taka stóra skammta af B6-vítamíni og fólinsýru. Hvað raunar veldur þessu er ekki fyllilega ljóst, en þó gæti verið að fylgjan fái ekki rétta næringu vegna ófullkominnar blóðrásar og þrenginga á æðum til fylgjunnar sem of mikið hómócystein í blóði veldur. Þá gæti einnig súrefnisskortur af sömu ástæðu átt þátt í fósturlátum.

Allt fólk með of mikið hómócystein í blóði þjáist af B-complex (B6, B12, fólinsýru og trimethylglycin) skorti. Með því að bæta úr þeim skorti færist hómócysteinmagnið í blóði í eðlilegt gildi aftur. Stórir skammtar af trimethylglycin virðist vera mjög áhrifaríkt til að lækka of hátt hómócystein, allt upp í 9 gr á dag. Einnig er B-komplex vítamín mjög áhrifaríkt. Eiginleiki þess við að minnka hómócystein mjög hratt er sennilega ein ástæða þess hversu B-komplex er gagnlegt við meðferð á Alzheimer-sjúkdómi.   Af hverju fá sumir Alzheimer-sjúkdóm en aðrir ekki ? Venjulegt fólk getur aðeins losað sig við 20 mg af áli á dag. Mjög auðvelt er að fara yfir þetta daglega magn með mörgu móti t.d. með því að nota ýmsar tilbúnar bakaðar brauðvörur og sýrubindandi magalyf, sem oft innihalda 200 mg af áli í skammti. Rannsóknir sanna að skortur á omega-3 fitusýrum getur valdið skaða á frumuhimnum sem gerir áli kleyft að komast inní  vefi sem annars eru öruggir frá ál–útfellingum. Þannig skortur (á omega-3 fitusýrum) er algengur í Bandaríkjunum (en sennilega fátíðari á íslandi. Þýð.)

Þegar líkaminn er neyddur til að nota síður æskilega fitu, vegna þess að skortur er á ómissandi fitum (af omega-3 og omega-6 röðinni) í fæðuna, veldur það því að myelin slíðrin utan um taugarnar geta ekki starfað fullkomlega rétt.   Fólk með nýrnastarfsemi á mörkum þess að vera í lagi eða er með skerta nýrnastarfsemi er í meiri hættu að fá álútfellingar í heila. Þetta á sérstaklega við um nýrnasjúklinga. Annað atriði er einnig afar mikilvægt, en það er hvort flúor er í drykkjarvatninu. Flúor eykur upptöku áls í líkamanum sem gerir heilaskemmdir líklegri en annars yrði. Fullar sannanir eru fyrir því að einstaklingar sem neyta mikils magns af áli eru í aukinni hættu að fá Alzheimer-sjúkdóm. Í einni könnun voru 23 einstaklingar með AS bornir saman við jafn marga einstaklinga sem ekki voru með Alzheimer-sjúkdóm en samanburðarhæfir að öðru leyti. Rannsóknin leiddi í ljós, að fólkið með AS hafði yfir ævina neytt meira af vöfflum, pönnukökum, kexi og margs konar hliðstæðum vörum. Við að nota þessar vörur tvöfölduðust líkur þess á að fá Alzheimer-sjúkdóm, miðað við samanburðarhópinn.

Allt þetta fólk hafði notað vörur sem í var notað lyftiduft með verulegu magni af áli sem er í flestu lyftidufti, þó að til sé lyftiduft með engu áli. (En því miður vita fáir að mest notuðu vörumerkin innihalda flest ál. Einnig má stundum nota natrón (matarsóda), hjartarsalt eða pottösku en ekkert ál er í þessum vörum . Þýð.) Aðrar vörur sem innihalda ál eru t.d. gervirjómi, ,,gerhveiti”, tilbúið efni sem notað er í kökur og tilbúið efni í annarskonar mat af margskonar uppruna.   Útfellingar í Alzheimerskellum eru sérstaklega miklar í þeim svæðum heilans sem hafa með þefskyn að gera. Það er þar sem örvun frá lykt er meðhöndluð og einnig þar sem innöndun frá ,,spray”-brúsum með svitalyktareyði myndi koma fram í  heilanum. Næstum örugglega mundu þeir sem nota svitalyktareyði og önnur efni sem innihalda ál teljast í meiri hættu en annað fólk að fá Alzheimer-sjúkdóm. Fyrir marga er svitalyktareyðir sennilega ein aðal ástæða þess að fá ál í líkamann.   Eldhúsáhöld er önnur uppspretta áls, þar á ég við potta, pönnur og margt fleira sem daglega er notað í eldhúsinu.

Þá má ekki gleyma niðursuðudósum, bæði með mat og drykk. Áströlsk rannsókn sýndi að niðursuðudósir með drykkjum, öðrum en Cola-drykkjum, voru með fimm sinnum meira ál en sömu drykkir í glerflöskum. Athugaðar voru 106 dósir með 52 mismunandi drykkjum.   Getum við hindrað og meðhöndlað Alzheimer-sjúkdóm? Hættið að nota matvörur sem ál er í. Það á t.d. við eldhúsáhöld úr áli, sem best er að skipta út fyrir vörur úr stáli, gleri eða leirvöru. Berið matvörur fram í glerílátum en ekki í niðursuðudósum og úr efni sem ekki eru úr áli til að eyða óþef. Hættið að nota ál-fólíur eða álpappír til að vefja um matvæli en notið þess í stað smjörpappír eða cellófan. Mörg sýrubindandi lyf innihalda ál og verið því varkár þegar þannig lyf eru notuð og fullvissið ykkur um að í þeim sé alls ekkert ál. Drekkið hreint vatn. Notið ekki bökunarduft sem inniheldur ál og kaupið ekki brauðvörur frá fyrirtækjum sem nota sennilega bökunarduft með álinnihaldi. Það þýðir að nota ekki kökur og þessháttar brauðvörur frá flestum hefðbundnum brauðbúðum. (Aðeins örfáar brauðbúðir t.d. náttúrulækningabúðir baka aðeins brauð sem aldrei eru með bökunardufti með áli. Þýð.) Miklu auðveldara er að koma í veg fyrir að ál setjist að í líkamanum heldur en að losna við það aftur, eftir þá eyðileggingu sem það veldur.

Ál beinlínis eykur myndun á lausum stakeindum sem skaða viðkvæmar frumuhimnur (myelin varnarhlífina utan um taugarnar) umhverfis taugafrumurnar í heilanum. Þegar nægjanlega mikið af þessum frumuhimnum hefur skaddast hætta taugaþræðirnir að geta flutt rétt boð og þau komast ekki á leiðarenda, sem veldur minnisglöpum. Hvernig þetta nákvæmlega gerist er ekki fyllilega ljóst og hvernig beta-amyloid útfellingar sem dæmigerðar eru fyrir Alzheimer-sjúkdóminn birtast í heilanum. Þetta er ekki vitað fullkomlega. Svo virðist þó að þessar útfellingar ýti undir bólgu í heilanum og sýnist vera frumorsök þeirrar eyðileggingar sem Alzheimer-sjúkdómurinn veldur á heilafrumum.   Hefur einhver nokkurn tíma náð sér af Alzheimer-sjúkdómi ? Tvö mjög vel vottfest dæmi eru frá árinu 1993. Louis Blank varð mjög truflaður við það að kona sem hann taldi sig ekkert kannast við fylgdi honum inn í lyftuna og fór með honum upp í íbúð. Þessi kona var dóttir hans sem komin var í heimsókn. Sjúkdómsgreining á honum var Alzheimer-sjúkdómur sem staðfest, var með nákvæmri greiningu, CAT-scan. Þegar hann var einna lakastur gat hann ekki tekið  þátt í samræðum, klætt sig sjálfur, farið út í búð, þrifið sig né matast án aðstoðar. Meðferðin sem hann fékk samanstóð af því að fjarlægð voru öll eldunaráhöld úr áli og ál niðursuðudósir og drykkjarílát. Hann fékk fæði mjög auðugt af magnesíum, ætlað til að chelat-binda ál í heilanum.

Í maí 1993 hafði hann öðlast getu til að taka þátt í samræðum og fara út úr íbúðinni. Hann endurheimti langtíma minni en glataði 6 mánuðum þegar ástand hans var sem lakast. Árið 1996 kom út bók sem Louis Blank skrifaði, Alzheimer´s Challanged and conquered.   Í júní 1993 staðfesti rannsókn Alzheimer-sjúkdóm (CAT-scan) í Tom Warren. Fjórum árum seinna sýndu endurteknar CAT-rannsóknir að merki um AS höfðu horfið. Meðferðin sem hann fékk var m.a. leiðrétting á skorti á saltsýru í maganum,  allar amalgam-tannfyllingar og leifar þeirra voru fjarlægðar, EDTA-meðferð (EDTA, ethylen-diamin tetraedisýra, er notuð til að chelat-binda málma t.d. blý og margt fleira, til að ná þessum efnum úr líkamanum) fór einnig fram. Þá fékk hann stóra skammta af vítamínum og steinefnum, þ.m.t. B3, B6, B12 og fólinsýru. Bók sem Tom Warren samdi heitir ,,Beating Alzheimer´s: A step Towards Unblocking the Mysteries of Brain Diseases.” Lykillinn að lækningunni var leiðrétting á saltsýru skortinum, kvikasilfurseitrun frá tannfyllingum ekki lengur til staðar og sennilega fleiri eitraðir málmar sem EDTA meðferðin hefur leiðrétt. Einnig hefur bætiefnameðferðin haft sitt að segja, sérstaklega magnesíum. Supreme-B sem er lífrænt B-Complex vítamín blandað með Biosil magnesíum klóríð í vökva-formi hefur gert heilbrigða 12 Alzheimer-sjúklinga. Supreme-B er notað,  ½ únsa (rúml. 14 mg) tvisvar á dag eftir máltíð. Skammturinn af Biosil er 6 dropar í vatni tvisvar á dag í mánuð en eftir það minnkað í 6 dropa á dag. Magnesíum klórið tekið, 30 dropar í vatni tvisvar á dag.

Gott fjölvítamín t.d. BAM (Beyond Any Multiple) á að nota þrisvar á dag með máltíðum. Flestir sjúklinganna löguðust eitthvað á minna en 30 dögum. Einn sjúklinganna var þó sérstaklega áhugaverður. Hann lagaðist lítið á 30 dögum á Supreme-B meðferðinni. Sá sem hafði umsjón með honum uppgötvaði að kaffivélin hjá honum var úr áli. Eftir að skipt var um kaffivél lagaðist hann fljótlega fullkomlega.    Mataræði fyrir Alzheimer-sjúklinga Vegna þess að orsök AS er örugglega tengd við bólgur í heilanum, er fæða sem dregur úr bólgum mikilvæg. Fæða sem hvetur bólgusvörun (mjólkurvörur, kjöt og egg) ættu því að vera notaðar í hófi og helst sem minnst.

Mataræði sem dregur úr bólgum er t.d. fiskmeti, flest grænmeti, línolía (hörfræolía), fiskiolía (lýsi), kvöldvorrósarolía (náttljósaolía) og ávextir. Neysla á þessu öllu má gjarna vaxa í fæði fyrir Alzheimer-sjúklinga. Arakidon sýra, er fitusýra sem töluvert er af í feitum afurðum af mörgum landdýrum, er talin stuðla að bólgum. Þess vegna er óráðlegt að nota mjólkurafurðir, kjötvörur og egg nema í smáum stíl. Dagleg þörf líkamans fyrir arakídon sýru er aðeins um 1 mg en vestrænt fæði er oft með 100-200 mg á dag.  Allt fólk með bólgusjúkdóma, t.d. gigtarsjúkdóma, æðakölkun, heila- og mænusigg, soriasis og krabbamein af ýmsum toga, liði trúlega betur ef það notaði minna af mat sem hvetur bólgumyndun en meira af mat sem dregur úr bólgum.   Gagnleg meðferðarúrræði Tólf einstaklingar sem allir höfðu þjáðst af Alzheimer-sjúkdómi læknuðust með því að nota fæðubótarefni sem nefnd eru Supreme-B, BioSil, C-vítamín, magnesíum klóríð í vökvaformi og gott fjölvítamín. Supreme-B: Þessi uppskrift inniheldur nálægt 100 mg daglega af auðmeltanlegu lithium orotat. Einnig thiamin propyl disulfið (B1-vítamín) 150 mg, B6-vítamín (pyridoxal 5 fosfat) 50 mg, Riboflavin 5 fosfat (B2-vítamín) 15 mg, biotín 500 mcg (0,5 mg), fólinsýra 500 mcg (0,5 mg), B12-vítamín hydroxy cobalamin 500 mcg Pantoþensýra (sem pantoþen) 500 mg, calcium pangamat (kalk) 100 mg, zink sem zink citrat 25 mg, selen sem selenomethionin 100 mcg, kalíum sem kalíum orotat 200 mg. Einnig er í þessari blöndu 233 mg 5-adenosylmethionin, N-acetyl-L-cystein og alfa lipósýra. Öll B-vítamínin í Supreme-B gegna sérstöku hlutverki fyrir heilafrumurnar og myelin varnarhlífina. Að búa til sjálfur Supreme-B er svo flókið að ólíklegt er að nokkur reyni að kópera það.   Athyglisverðar lækningar á erfiðum taugasjúkdómum t.d. diabetic neuritis, lumbar stenosis, MS (multiple sclerosis) o.fl. hafa verði skrásettar eftir að hafa notað Supreme-B. Börn með ofvirkni og athyglisbrest hafa getað hætt að nota ritalin.

Hjá mér sjálfum lagaðist eftir tvo mánuði presby esopagus eftir að ég hafði notað Supreme-B í tvo mánuði, sem læknaði taugaskemmd sem stafaði af sykursýki.   Til viðbótar lagaðist hjartabilun sem líklega stafaði af of miklu homocysteini sem B-Supreme lagaði samstundis. Of mikið homocystein í blóði veldur því að útfellingar myndast innan á slagæðum og lélegt blóðflæði í slagæðum stuðlar að myndun blóðtappa og að æðar lokist. Séu daglega notuð ákveðin ensím (próteinkljúfar) má stundum leysa upp útfellingar innan á slagæðum og bæta þannig blóðrásina. (Vitalzyme x, Wobenzyme, nattokinase, lumbokinase eða bromelin).   Við álítum að hálf únsa (rúml. 14 mg) af Supreme-B tvisvar á dag sé lykil meðferðarúrræði fyrir alla sem hafa fengið AS eða til að  koma í veg fyrir að fá sjúkdóminn. Magnið af lithium orotat sem mælt er með að nota til að hvetja myndun nýrra heilafruma (neurons) í stað þeirra sem af ýmsum ástæðum t.d. áli eða rafsegulbylgjum, hafa skaðast eða eyðilagst. Engar hliðarverkanir hafa fundist við að nota Supreme-B.

Silica (Kísiloxíð) Silica er notuð til að minnka ál í drykkjarvatni en það gæti hugsanlega komið í veg fyrir að AS geti læknast eða gengið til baka.   Lithium Lithium er einn af alkalímálmunum, eins og natríum og kalíum. Lengi hefur það verið notað sem áhrifaríkt lyf við geðbrigðasýki (bipolar disorder). Hefðbundnar læknisfræðilegar hugmyndir hafa talið að við séum stöðugt allt okkar líf að glata taugafrumum eftir að heilinn hefur náð fullum þroska, sem lýsir sér í að hann smá dregst saman eftir því sem aldur færist yfir okkur. Samt sem áður hafa nýjar rannsóknir sýnt að smáir skammtar 10-20 mg á dag af lithium aspartat getur varðveitt og endurnýjað heilafrumur. Átta af tíu einstaklingum sem gefið var lithium sýndu 3% aukningu á gráu efni í heilanum á aðeins 5 vikum. Þetta magn er öruggt til neyslu og sýnist þess virði að notfæra sér. Lithium hefur þar að auki eftirfarandi kosti fyrir heilafrumurnar í för með sér:

  • Það örvar endurnýjun á DNA erfðaefni, fyrsta þrepið í myndun nýrrar frumu
  • Dýratilraunir hafa sýnt að lithium getur minnkað frumudauða, eftir tilbúin heilaáföll, um 50%
  • Eyðileggjandi áhrif af skaðlegum efnum, t.d. aspartam og mononatrium glutamat (þriðja kryddið) geta að mestu horfið fyrir áhrif frá lithium.
  • Lithium getur varið heilafrumur úr rottuheilum fyrir auknum frumudauða af völdum flogaveikilyfja.
  • Lithium er vörn gegn skaðlegum áhrifum af áfengi, tóbaki, koffeini, örvandi og róandi lyfjum, marijuana og öðrum lyfjum sem hafa áhrif á skapgerð. Allt þetta getur skaðað heilastarfsssemina við langvarandi neyslu.
  • Óeðlileg eða röng heilaboðmerki geta orðið eðlileg eða rétt fyrir áhrif frá lithium.
  • Ál sem talið er að gæti verið ein ástæða fyrir Alzheimer-sjúkdómi er hægt að chelat-binda með lithium. Í þannig formi er miklu auðveldara að losna við efnið úr líkamanum.
  • Lithium hægir á myndun beta-amyloid. Rannsóknir benda til þess að  lithium stöðvi myndun beta-amiloid peptíða og hindri skemmdir frá beta-amiloid paptíðum, sem þegar hafa myndast. Ofvirkni hjá heilafrumu próteininu tau, leiðir til dauða heilafrumna (neurons) í Alzheimer-sjúkdómi. Lithium ætti að vera grundvallar læknismeðferð fyrir alla sem þjást af AS og öðrum heilahrörnunarsjúkdómum, vegna þess að það hvetur myndun nýrra heilafruma (neurons), sem þá hlýtur að teljast æskilegt. Landafræðilegar rannsóknir í Texas-ríki hafa afhjúpað að í löndum þar sem mikið er af lithium í vatni eru færri ofbeldisglæpir (morð, sjálfsmorð, nauðganir), færri rán, minni ofdrykkja og alvarlegir geðsjúkdómar (Schrauzer o.fl. Biof. Trace Elem. 1990, bls. 105-113).

Hvernig hreinsa má ál og þungmálma úr líkamanum. Hér er fjallað um bætiefnablöndu sem á ensku er nefnd Essential daily Defense (EDD) (Ómissandi dagleg vörn). Þetta er bætiefnablanda sem m.a. inniheldur eplasýru (malic acid), hvítlauk og EDTA (Ethylen diamin tetra-ediksýru). Þessi blanda getur chelat-bundið ýmsa skaðlega málma sem safnast hafa upp í líkamanum, m.a. ál og kvikasilfur, en þessir málmar eru ásamt fleiru taldir eiga þátt í að fólk fær Alzheimer-sjúkdóm. Með því að ,,chelat-binda” þessi efni getur líkaminn losnað við þau með þvaginu. Það telur höfundur greinarinnar afar mikilægt skref í þá átt að lækna Alzheimer-sjúkdóm og raunar algera nauðsyn. Sennilega er ekki hægt að fá hér þessa efnablöndu, sem nefnd er EDD í erlendu greininni sem þessar upplýsingar eru fengnar úr, en hvítlauk, eplasýru og EDTA má fá hér. Mælt er með að nota þetta rétt fyrir allar máltíðir og taka eitt eða tvö hylki í hvert sinn. Þar er vitanlega átt við EDD efnablönduna, ef einhver gæti fengið hana frá Ameríku. Þegar EDD efnablandan hefur verið notuð í nokkurn tíma er mælt með að nota einnig steinefnablöndu sem nefnd er BAM (Beyond Any Multiple) sem sennilega er aðallega kalk og magnesíum, til að bæta sér upp það sem líkaminn missir við að nota EDD í langan tíma samfleytt.   Ævar Jóhannesson þýddi. Heimildir: Townsend letter, apríl-hefti 2010. Vefslóð: www.townsendletter.com Mynd: http://www.pachd.com/free-images/nature-images/sunset-05.jpg Mynd: http://www.pachd.com/free-images/household-images/frying-pan-01.jpg Mynd: http://www.808hi.net/images/biosil_30vc.jpg Mynd: https://www.immunematrix.com/store/images/P/bam_bottle.jpg Mynd: http://www.nu-mega.com/images/Brain.jpg Bendum einnig á fleiri greinar um svipað efni hér á heilsuhringsvefnum t.d. undir: skrif Ævars Jóhannessonar – Greinar   Þann 11. nóv. 2010 birtist eftirfarandi grein á vefsíðu dr. Mercola á vefslóðinni:   http://articles.mercola.com/sites/articles/archive/2010/11/19/vitamin-b12-helps-ward-off-alzheimers.aspx