Klassískar kínverskar nálastungur

Nálastungur eru upprunnar í Kína og elstu skriflegu heimildir um þær eru u.þ.b. 2.500 ára gamlar. Þá þegar gefa þær góðar upplýsingar um veikindi, heilsu og fyrirbyggjandi meðferðir. Nálastungur eru ein af fáum lækningameðferðum sem sem byggja á svo fornum grunni og notaðar eru á okkar tímum um allan heim. Smá saman hefur skilningur á gagnsemi nálastungna aukist í okkar vestræna heimi og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. WHO) álítur þær árangursríka meðferð við heilsutengdum vandamálum sem byggi á raunhæfri sýn á starfsemi líkamans og lækningu veikinda.

Allt snýst þetta um orku, eða Chi eins og sagt er. Í Kína er litið á alla sköpun og efnisbirtingu hennar, að manninum meðtöldum, sem formbirtingu af Chi. Allt er orka á hreyfingu, jafnvel hinn þéttasti efnismassi. Á undanförnum áratugum hafa vísindarannsóknir hleypt stoðum undir kenninguna um hreyfingu orku í efnisheiminum.

Nýlega voru uppgötvaðar örsmáar brautir sem innihalda ljóseindir, prótein, stofnfrumur og DNA sem liggja samhliða æðum, sogæðum og taugum og fara um allan líkamann. Þessi uppgötvun varpar enn frekara ljósi á það, sem virtist mönnum ljóst í Kína fyrir mörg þúsund árum, að um líkamann liggja orkubrautir. Mannslíkaminn er knúinn áfram af lífsorku ,Chi, sem rennur um líkamann í orkubrautum og að hægt er að hafa áhrif á heilsu manna gegnum þessar orkubrautir með nálastungum.