Umsagnir

Nálarstunguaðferðin hefur reynst mér einstaklega vel. Ég leitaði mér fyrst lækninga hjá Dagmar fyrir tilstilli systur minnar algjörlega orkulaus eftir barnsfæðingu fyrir fjórtán árum. Árangurinn var undraverður. Þegar breytingaskeiðið helltist yfir mig fyrir tveimur árum hugkvæmdist mér sem betur ferð að fara til Dagmar og sagan endurtók sig. Satt best að segja átti ég ekki von á svo undraverðum bata. Í dag hef ég samband við Dagmar um leið og svitakóf og svefnleysi láta á sér kræla.
Nálarstunguaðferðin hugnast mér betur en lyfjameðferð. Ég veit líka að Dagmar hefur meiri menntun en flestir aðrir nálarstungulæknar á Íslandi. Ég leita til hennar eftir þörfum, bara eins og um venjulegan lækni væri að ræða.

SP verkefnastjóri

Þegar ég gekk með fyrsta barnið mitt gekk meðgangan að öllu leyti eins og í sögu utan þess að ég glímdi við mjög þrálát og óþægileg einkenni frá þvagfærum. Einkennin komu í köstum en hurfu sem betur fer yfir lengri tímabil. Þau lýstu sér eins og þvagfærasýking með einkennum á borð við; sársauka við þvaglát, stöðuga þvaglátsþörf, tíð þvaglát, eymsli yfir blöðrustað og sviða og óþægindum í þvagrás sérstaklega eftir þvaglát. Ég hef oft í gegnum tíðina fengið þvagfærasýkingar og veit það hver sem hefur lent í því að það er mjög sársaukafull og óþægileg reynsla. Á meðgöngunni virtust þó þessi einkenni ekki stafa vegna sýkingar. Eftir að hafa margoft sent þvagprufur í ræktun þar sem enginn bakteríuvöxtur fannst var lítið annað að gera en að leita annarra ráða. Það var ýmislegt reynt með misgóðum árangri en um leið og barnið var fætt hvarf vandamálið og skaut ekki upp kollinum fyrr en ég varð ólétt aftur. Fyrsti þriðjungur annarrar meðgöngunnar gekk vel en um leið og ég sigldi inní annan þriðjung bankaði blöðrubólgan uppá. Ég byrjaði á að leita til læknis og var sett á nokkra mismunandi sýklalyfjakúra með engum árangri þar sem að vandamálið stafaði ekki af sýkingu. Ég fór í sársaukafulla víkkun á þvagrás sem að hjálpaði einnig bara takmarkað. Sagan frá því á fyrri meðgöngu var að endurtaka sig, enginn bakteríuvöxtur í þvaginu og enginn árangur af ´´hefðbundnum´´ leiðum en í þetta sinn var ég enn verri en síðast þar sem einkennin voru stöðugt til staðar. Önnur ráð sem að höfðu virkað á fyrri meðgöngu eins og heit böð og tedrykkja dugðu einnig skammt. Ég ákvað því að leita annarra leiða og ég hafði frétt af nálastungum hjá Dagmar í gegnum vinkonu mína sem var líka ólétt. Hún, eins og margar aðrar konur, kastaði sífellt upp og var mjög óglatt á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Hún lýsti árangrinum af nálastungumeðferð þannig að það væri eins og að settur væri uppí hana tappi, svo mikill væri hann að ógleðin bara hyrfi eftir meðferðina. Ég ákvað að athuga hvort að möguleiki væri á að nálastungur gætu gert eitthvað fyrir mig. Ég pantaði tíma hjá Dagmar en stillti væntingum mínum í hóf. Strax eftir fyrsta tímann fann ég mikinn mun og hafði ekki liðið svona vel í margar vikur. Þvílíkur léttir að hafa fundið eitthvað sem lét mér líða betur! Í upphafi þurfti ég að koma vikulega í tíma til að halda mér góðri en smám saman gátum við lengt tímann sem leið á milli meðferða. Það gátu liðið allt að sex vikur án þess að ég finndi fyrir óþægindum og einnig var ég ekki orðin jafn slæm og í upphafi þegar ég kom aftur. Ég get fullyrt að nálastungurnar björguðu algerlega meðgöngunni minni. Á fjórða mánuði sá ég fram á að geta ekki unnið neitt og þurfa að liggja uppí rúmi með hitapoka á kviðnum næstu mánuðina. Sem betur fer fannst miklu betri lausn á vandamálinu og gat ég unnið og haldið áfram með daglegt líf. Fyrir utan þennan frábæra árangur af nálastungunum þá fannst mér líka ótrúlega gott að koma í notalegt umhverfi, spjalla smá og fá gott baknudd.
Takk kærlega fyrir mig.
SHG (Hjúkrunarfræðingur)

Fyrir nokkrum árum var ég nokkuð illa stödd, var bæði andlega og líkamlega uppgefin. Var mér bent á að meðferð í nálastungum gæti hjálpað mér. Í fyrstu fékk ég meðferð nokkuð þétt og fann ég strax að mér leið betur og jafnvægi komst á líðan mína. Tók ég þá ákvörðun að nálarstungur yrðu hluti af lífi mínu því ég er viss um að þær hjálpa mér að vera í andlegu og líkamlegu jafnvægi. Tíminn sem ég ver í nálastungur er tíminn sem ég hugsa um líðan mína og stöðu, tími íhugunar og friðar.
GHT. Kennari

Haustið 1996 fór ég í nokkra tíma í nálastungur hjá Dagmar Eiríksdóttir vegna þrálátra mígreniskasta, eftir fyrsta tímann fékk ég mjög slæmt kast og hafði samband við Dagmar og sagði hún það mjög eðlilegt þar sem stungurnar væru að vinna á meininu og fékk annan tíma fljótlega. Í framhaldi af því hefur dregið mjög úr höfuðverkjarköstum hjá mér frá þvi að vera tvisvar þrisvar í mánuði niður í kannski einu sinni á ári og þá mikið vægara kast. Einnig hef ég átt við eymsi í baki eftir erfiðisvinnu og gera nálarnar mér gott þar líka . Í dag fer ég alltaf af og til í tíma til þess að viðhalda góðu heilbrigði og fæ einnig góð ráð um betri lífstíl og mataræði.
Kveðja, HH vélstjóri